Heilsuleikskólinn Krógaból er í Síðuhverfi og er staðsettur á neðri hæð Glerárkirkju, stutt frá Síðuskóla og er mjög gott samstarf milli skólanna.
Í Krógabóli eru 6 deildir og eru einn til tveir árgangar á hverri deild. Deildirnar heita:Hreiðrið, Lóan, Spóinn, Björkin og Öspin og í Síðuskóla er 5 ára deild og heitir hún Mói.
Markmið heilsuleikskóla er að stuðla að heilsueflingu innan skólans með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik. Í heilsustefnunni er lögð áhersla á að venja börn strax í barnæsku við heilbrigða lífshætti með það í huga að þeir verði hluti af lífsstíl þeirra til framtíðar.
Unnið er með kennsluefnið Lífsleikni í leikskóla þar sem lögð er áhersla á að börnin tileinki sér lífsleikni í gegnum allt nám skólans. Lífsleikni byggist á alhliða þroska, færni til samskipta, rökrænnar tjáningar og að bera virðingu fyrir umhverfi sínu. Markmið lífsleiknikennslunnar er að efla siðferðisvitund barna og fullorðinna í þeim tilgangi að verða bæði góð og fróð manneskja.
Málrækt er samofin daglegu starfi skólans þar sem m.a. er unnið að ýmsum verkefnum sem miða að því að auka skilning og hæfni barna til að tjá sig og koma hugmyndum sínum á framfæri. Lögð er áhersla á að flétta samræðu, tjáningu, hlustun, ritun og lestur inn í leik og daglegt starf. Auka færni barna á íslenskri tungu, vekja áhuga þeirra á bókum og kenna þeim að vera læs á umhverfi sitt. Námið er miðað að aldri og þroska barna og lagt upp úr að námið fari fram í gegnum leik.


Hér má skoða foreldrahandbók leikskólans: foreldrahandbók 2021.pdf

© 2016 - 2024 Karellen