Hugmyndafræði

Hugmyndafræði
Starfið á Krógabóli byggir á fjórum meginstoðum, lífsleiknikennslu, heilsustefnu, sköpun og málrækt. Við teljum þessar fjórar grunnstoðir eiga vel saman og með þær að leiðarljósi getum við unnið að aðalmarkmiðinu okkar sem er að stuðla að heilbrigðri sál í hraustum líkama.

Við höfum þróað og markað stefnu leikskólans í gegnum nokkur þróunarverkefni, þau helstu eru: Lífsleikni í leikskóla og Veggurinn – málrækt í leikskóla, einnig var mikið þróunarstarf unnið þegar leikskólinn gerðist aðili að Samtökum heilsuleikskóla.

Lífsleikni í leikskóla
Krógaból vann þróunarverkefnið „Lífsleikni í leikskóla“ ásamt leikskólunum Síðuseli og Sunnubóli árin 2001 til 2004 og byggir lífsleiknikennslan/dygðakennslan á því verkefni.

Lífsleikni byggist á alhliða þroska, færni til samskipta, rökrænnar tjáningar og að bera virðingu fyrir umhverfi sínu.

Allt okkar starf litast af lífsleiknikennslu hvort sem er í hópastarfi, samveru, listsköpun eða hreyfingu. Lífsleiknin er sem rauður þráður í öllu starfi okkar og ræðum við um lífsleiknina eins oft og mögulegt er í daglegu starfi.

Þróunarverkfnið Lífsleikni í leikskóla fékk viðurkenningu frá Íslensku menntasamtökunum fyrir framúrskarandi árangur í menntamálum. Við erum að stolt af þessum verðlaun, þau eru góð hvatning til okkar.

Heilsuleikskólinn Krógaból
Krógaból hefur verið heilsuleikskóli frá því í júní 2007. Í leikskólanum er því starfað eftir viðmiðum heilsustefnunnar þar sem markmiðið er að auka gleði og vellíðan barna og starfsfólks með áherslu á hreyfingu og holla næringu ásamt listsköpun í leik og starfi.

Mikið er lagt upp úr að fara með börnin í vettvangsferðir og bjóða þeim upp á skipulagðar hreyfistundir með kennara í sal. Öll börn fara einu sinni í viku í salinn þar sem unnið er á fjölbreyttan hátt með hreyfingu.

Til að fylgjast með þroska hvers barns og samskiptum í leikskólanum, eru gerðar skráningar sem færðar eru inn í heilsubók barnsins. Heilsubókin hefur að geyma ýmsar upplýsingar um barnið t.d. heilsufar, hreyfingu, næringu, hæð, þyngd, færni í fínhreyfingum og ýmislegt fleira.

Skráð er í heilsubókina tvisvar á ári og eru niðurstöður kynntar í foreldraviðtölum. Bókin fylgir barninu á milli deilda og í lok leikskólagöngu fær barnið bókina til eignar.

Veggurinn – málrækt í leikskóla
Veturinn 2014-2015 var málræktin tekin til endurskoðunar á Krógabóli og jafnframt unnin ný aldurstengd námskrá fyrir leikskólann. Markviss málörvun var aukin hjá öllum aldurshópum, búið var til nýtt efni og það sem til var í leikskólanum var flokkað og staðsett miðsvæðis. Aðgengi kennara að málörvunarefni jókst til muna og auðveldaði öllu starfsfólki leikskólans að vinna með málrækt á markvissan hátt.

Markmiðið með þróunarverkefninu var heildstæð nálgun á málrækt. Liður í því var að búa til skýra námskrá fyrir hvert aldursár og matsblöð þar sem kennarinn metur starfið jafnóðum, búnar voru til kennsluleiðbeiningar þar sem hreyfing og dygðakennsla var samþætt inn í verkefnin í samræmi við stefnu leikskólans.Mikið var lagt upp úr að verkefnin væru skemmtileg og að börnin læri málið í gegnum leik.

Verkefnið dregur nafn sitt af því að allt málörvunarefni leikskólans var sett á áberandi stað miðsvæðis í húsnæðinu. „Veggurinn“ sem varð fyrir valin varð þannig að þungamiðju verkefnisins. Þar var málörvunarefnið flokkað niður í sex flokka eftir litum. Flokkarnir eru almenn málörvun, hljóðkerfisvitund, lestrarhvetjandi efni, sögugrunnur, stærðfræði og bókaverkefni.

Mikill áhugi skapaðist meðal kennara og barna á að vinna þematengd verkefni tengd bókum og/eða vísum og þulum í tengslum við þróunarverkefnið. Þessi vinnuaðferð hefur gefist afar vel.

Árið 2015-2016 fékk leikskólinn myndarlegan styrk til að halda áfram með verkefnið og bæta spjaldtölvum inn í starfið.

Veggurinn – málrækt í leikskóla miðar að því að auka færni barna á íslenskri tungu, vekja áhuga þeirra á bókum og kenna þeim að vera læs á umhverfi sitt í gegnum leik.

Sérkennsla
Börn eru ólík, þau búa yfir mismunandi getu, reynslu og þroska. Þau hafa ólíka styrk- og veikleika. Á Krógabóli er leitast við að taka tillit til hvers einstaks barns svo að það geti notið sín á eigin forsendum í barnahópnum. Þegar hegðun barns eða geta er ekki á við jafnaldra getur reynst nauðsynlegt að grípa inn í og veita barni stuðning og hvatningu í lengri eða skemmri tíma eftir þörfum barnsins og fjölskyldu þess.

© 2016 - 2024 Karellen